Við í Bjartri framtíð héldum skemmtilegt karaókíkvöld í félagsheimilinu okkar á dögunum. Kosningarnar fóru kannski ekki eins og ég og aðrir hefðum viljað en það verður ekki tekið frá mér að kvöldið var rosalega skemmtilegt og ég er bara ansi góður karókístjóri.
Ég ákvað að útbúa 2 smárétti sem virtust falla vel í kramið hjá okkar góðu gestum. Fínir og frekar sumarlegir. Polentu er meðal annars hægt að fá í Hagkaup og Melabúðinni. Er yfirleitt á sömu slóðum og pasta og risotto er að finna.
Polenta með lime, kóríander og vorlauk.
2,5 dl polentugrjón
7, 5 dl vatn
1 hvítlauksrif
1 grænmetisteningur/grænmetiskraftur
5 stilkar af vorlauk
1-2 dl af paramesan osti
Lúka af gómsætum kóríander
1 msk ólífuolía
1 lime
Salt og pipar
Byrjið á því að hita vatnið, ég nota alltaf hraðsuðuketil sem er þægilegt. Á meðan vatnið hitnar, hitið laukinn og þegar hann hefur aðeins mýkst hellið þá grænmetissoðinu út í, fáið upp suðu og þegar hún er komin, færið pottinn af hellunni, hellið polentugrjónunum útí og verið tilbúin með písk og hrærið hratt og vel svo ekki myndist kekkir. Lækkið vel í hellunni og látið aftur pottinn á og haldið áfram að hræra. Skellið svo útí helmingnum af vorlauknum og helming af ostinum. Hrærið aftur. Ég skellti þessu svo í tvö smurð form (ólífuolía) sem eru saman á við eina ofnskúffu í stærð. Sléttið úr, ég nota yfirleitt sleikju til þessa og látið svo inn í ískáp, minnst 15 mín. Takið svo út, látið rifinn paramesan yfir og inn í ofn. Hitið í um 40 mín. Skerið í minni bita og saltið og piprið. Líka fínt að hafa þetta í bökuformi og bera fram sem böku. Kreistið yfir smá lime, rífið yfir limebörk, jafnvel meiri paramesan, salt og pipar og stráið yfir kóríander og vorlauki. Polenta er svona matur sem maður þarf að æfa sig aðeins með, eins og með risotto, en æfingin skapar meistarann og hún verður alltaf bragðgóð, jafnvel í fyrsta skipti, svo bara betri og betri og mæli líka með að grilla polentu eftir að hún kemur úr ískápnum. Ef manni hugnast að gera báða þessa rétti sem hér eru þá er flott að búa til polentuna, láta hana inn í ískáp og í millitíðinni útbúa Buffalo blómkál og svo hafa allt saman inni í ofni. Sósan sem er með buffalo blómkálinu er líka mjög góð með polentunni.
Buffalo blómkál
Eitt blómkálshöfuð4-5 msk bráðið smjör
6 msk Frank´s hot sause eða svipuð sósa
1 msk hvítvínsedik
1/2 tsk hvítlauksduft
3-4 dl brauðmylsna
Sósa
2 dl grísk jógúrt
1/2 - 1 dl smátt skorinn/rifinn gráðostur
1 msk majónes (má sleppa)
1 lítið hvílauksrif, smátt skorið
1 msk mjólk/súrmjólk
Safi úr 1/2 sítrónu
Salt og pipar
Hitið ofninn í 200°c. Brytjið/skerið niður blómkálið í hæfilega bita, ég var með þá frekar smáa í gær þar sem þetta var fyrir marga en annars örugglega gott að leyfa þeim að vera aðeins stærri.
Látið í skál smjörið, hot sósuna, edikið, hvítlauksduftið, salt og pipar. Hrærið saman. Látið brauðmylsnuna á grunnan disk. Leggið bökunarpappír á plötu.
Hellið blöndunni yfir blómkálið og hrærið vel þangað til blandan þekur alla bitana vel. Látið nokkra bita í einu í raspið og þekjið vel. Látið yfir á bökunarpappírinn. Inni í ofn með góðgætið og hitið í 30 mínútur. Það er hægt að djúpsteikja bitana en þetta er bara mjög gott úr ofninum. Berið fram með gráðostasósu eða annari kaldri sósu, sjá það sem á að vera í henni, skella því öllu saman í matvinnsluvél (þó hægt að hræra bara hratt og vel með handafli). Betra að sósan nái að vera aðeins í ískáp áður en borin fram. Einnig er gott að hafa niðurskorið sellerí og gulrætur með ásamt blómkálinu.