Friday, June 6, 2014

Sumarlegir smáréttir





















Við í Bjartri framtíð héldum skemmtilegt karaókíkvöld í félagsheimilinu okkar á dögunum. Kosningarnar fóru kannski ekki eins og ég og aðrir hefðum viljað en það verður ekki tekið frá mér að kvöldið var rosalega skemmtilegt og ég er bara ansi góður karókístjóri.

Ég ákvað að útbúa 2 smárétti sem virtust falla vel í kramið hjá okkar góðu gestum. Fínir og frekar sumarlegir. Polentu er meðal annars hægt að fá í Hagkaup og Melabúðinni. Er yfirleitt á sömu slóðum og pasta og risotto er að finna.

Polenta með lime, kóríander og vorlauk.

2,5 dl polentugrjón
7, 5 dl vatn
1 hvítlauksrif
1 grænmetisteningur/grænmetiskraftur
5 stilkar af vorlauk
1-2 dl af paramesan osti
Lúka af gómsætum kóríander
1 msk ólífuolía
1 lime
Salt og pipar

Byrjið á því að hita vatnið, ég nota alltaf hraðsuðuketil sem er þægilegt. Á meðan vatnið hitnar, hitið laukinn og þegar hann hefur aðeins mýkst hellið þá grænmetissoðinu út í, fáið upp suðu og þegar hún er komin, færið pottinn af hellunni, hellið polentugrjónunum útí og verið tilbúin með písk og hrærið hratt og vel svo ekki myndist kekkir. Lækkið vel í hellunni og látið aftur pottinn á og haldið áfram að hræra. Skellið svo útí helmingnum af vorlauknum og helming af ostinum. Hrærið aftur. Ég skellti þessu svo í tvö smurð form (ólífuolía) sem eru saman á við eina ofnskúffu í stærð. Sléttið úr, ég nota yfirleitt sleikju til þessa  og látið svo inn í ískáp, minnst 15 mín. Takið svo út, látið rifinn paramesan yfir og inn í ofn. Hitið í um 40 mín. Skerið í minni bita og saltið og piprið. Líka fínt að hafa þetta í bökuformi og bera fram sem böku. Kreistið yfir smá lime, rífið yfir limebörk, jafnvel meiri paramesan, salt og pipar og stráið yfir kóríander og vorlauki. Polenta er svona matur sem maður þarf að æfa sig aðeins með, eins og með risotto, en æfingin skapar meistarann og hún verður alltaf bragðgóð, jafnvel í fyrsta skipti, svo bara betri og betri og mæli líka með að grilla polentu eftir að hún kemur úr ískápnum. Ef manni hugnast að gera báða þessa rétti sem hér eru þá er flott að búa til polentuna, láta hana inn í ískáp og í millitíðinni útbúa Buffalo blómkál og svo hafa allt saman inni í ofni. Sósan sem er með buffalo blómkálinu er líka mjög góð með polentunni.

Buffalo blómkál
Eitt blómkálshöfuð
4-5 msk bráðið smjör
6 msk Frank´s hot sause eða svipuð sósa
1 msk hvítvínsedik
1/2 tsk hvítlauksduft
3-4 dl brauðmylsna

Sósa
2 dl grísk jógúrt
1/2 - 1 dl smátt skorinn/rifinn gráðostur
1 msk majónes (má sleppa)
1 lítið hvílauksrif, smátt skorið
1 msk mjólk/súrmjólk
Safi úr 1/2 sítrónu
Salt og pipar

Hitið ofninn í 200°c. Brytjið/skerið niður blómkálið í hæfilega bita, ég var með þá frekar smáa í gær þar sem þetta var fyrir marga en annars örugglega gott að leyfa þeim að vera aðeins stærri. 
Látið í skál smjörið, hot sósuna, edikið, hvítlauksduftið, salt og pipar. Hrærið saman. Látið brauðmylsnuna á grunnan disk. Leggið bökunarpappír á plötu. 

Hellið blöndunni yfir blómkálið og hrærið vel þangað til blandan þekur alla bitana vel. Látið nokkra bita í einu í raspið og þekjið vel. Látið yfir á bökunarpappírinn. Inni í ofn með góðgætið og hitið í 30 mínútur. Það er hægt að djúpsteikja bitana en þetta er bara mjög gott úr ofninum. Berið fram með gráðostasósu eða annari kaldri sósu, sjá það sem á að vera í henni, skella því öllu saman í matvinnsluvél (þó hægt að hræra bara hratt og vel með handafli). Betra að sósan nái að vera aðeins í ískáp áður en borin fram. Einnig er gott að hafa niðurskorið sellerí og gulrætur með ásamt blómkálinu. 

Monday, December 9, 2013

Beet bourguignon með kartöflumús.

























Hefur lengi langað að búa til svona rétt. Alltaf þótt beef bourguignon girnilegur og fallegur réttur.
Skoðað ýmsar uppskriftir í þessa átt og hér er mín útgáfa.

Beet bourguignon 

2-3 msk ólífuolía
1-2 laukar niðurskornir
3-4 hvítlauksrif, smátt skorið
2-3 rauðrófur, skornar í bita
4 gulrætur, skornar í bita
4-6 bergmyntu/timjan greinar
2 dl grænar eða puylinsur
2-3 msk tómatpaste
3 dl rauðvín
4 dl grænmetissoð
3 lárviðarlauf
2 msk maisenamjöl
1 msk balsamic edik, má sleppa.
100 - 200 gr af sveppum
Klípa af smjöri

Kartöflumús með hlynssírópi

3 stórar kartöflur
1/2 tsk múskat
sjávarsalt
Smá mjólk
1 - 2 msk hlynssíróp.

Hitið olíuna, látið laukinn út í þegar olían er heit og svo hvítlaukinn. Látið svo út í timjan, rauðrófur, gulrætur og linsur. Hrærið og saltið og piprið. Hellið yfir rauðvíni, soði og bætið tómatpaste og lárviðarlaufum útí. Fáið upp suðu og látið svo malla í dágóða stund.
Ég fékk aftur upp suðuna og lét maisenamjölið út í til að þykkja og bætti einnig við balsamic edikinu. 

Svo steikti ég sveppina í smjöri og litlu, rifnu hvítlauksrifi. Bætið útí pottinn og látið malla í ca. 10 mín. í viðbót. Það gæti líka verið gott að steikja með sveppunum smá perlulauk.

Samhliða skrældi ég kartöflurnar, skar í bita og sauð, þegar þær voru mátulegar hellti ég vatninu af en skyldi örlítið eftir, sem ég blandaði við, hellti múskat yfir, salt, mjólk og sýrópi og stappaði með kartöflustappara eða hvað það nú heitir. Alveg hægt að sleppa sýrópi en mér fannst það mjög gott. 

Ekki verra ef þetta fær að malla í góðan tíma og nú þegar ég skrifa þetta daginn eftir og er að gæða mér á afgöngum þá ætti maður helst að gera þetta daginn áður. Bon appetit.


Monday, November 4, 2013

Yljandi vetrarsúpa

   























Þessi súpa er kannski ekki sú fallegasta í augum allra, þó ég sé reyndar sjálf mjög hrifin af svona gamaldags "frönsk sveitarsúpa" útliti. Fæ reglulega mikla löngun eða "craving" í súpu með grænum linsum og grænu grænmeti. Slíkt er stútfullt af járni og öðru góðgæti. Á alltaf frosið spínat og er búin að finna eitt einstaklega gott í Víði, sem er laust í sér en ekki svona hnullungar og er því þægilegt að nota líka í smoothies og svona. Notaði alveg 3 l af grænmetissoði svo notið stærri pott. Er búin að vera dugleg í að gera nóg svo jafnvel afgangur verði sem fer í frystinn eða með í vinnuna daginn eftir.  Ég nota stundum töfrasprota á hluta af súpum sem ég geri til að gefa krökkunum en svo getur líka verið gott að taka smá hluta til hliðar og mixa og láta aftur út í, vilji maður þykkari súpu en samt með grænmetisbitum í.

Var svo kallt og hnerrandi í allan dag, ekki frá því að súpan hafi hresst mig við. Langaði ekki í brauð með en súrdeigsbrauð væri örugglega dásamlegt með.

Yljandi vetrarsúpa

3 sellerístilkar
3 gulrætur
3 hvítlauksrif
1 stór kartafla
Lítill brokkólíhaus
3 dl frosið spínat 
2 dl grænar linsur
3 l grænmetissoð
2 msk rifið engifer
2 msk cumin
2 tsk korianderduft
2 lárviðarlauf
2-3 msk sítrónusafi
Hrein jógúrt
Slatti af salt og pipar

Útbúið soðið. Skerið allt grænmeti í þægilega bitastærð. Hitið olíu í potti, skellið hvítlauknum, skornum eða krömdum útí. Hitið í ca. mínútu og skellið sellerí, gulrótum, kartöflum, brokkólí, spínati og linsum út í, hrærið og hitið í ca. 2 mín. Hellið yfir engiferi,cumin og kóríanderdufti, hrærið. Leggið lárviðarlauf yfir blönduna og hellið svo soðinu yfir. Fáið upp suðu. Leyfið þessu að sjóða í smá tíma, 3-5 mín. Látið slatta af sjávarsalti, ferskan pipar og sítrónusafann útí og lækkið svo hitann. Svona súpa þarf helst að mínu mati að fá að malla í klukkutíma minnst til að fá í sig meira bragð. Smakkið til, mjóg ólíkt hversu mikið salt hentar. Eins mæli ég með sítrónusneiðum, salti og pipar á borðið svo hver og einn geti aðeins bragðbætt fyrir sinn eigin smekk. Ég notaði smá hreina jógúrt yfir sem var mjög gott. 
Þessi súpa er með svona frönsku ívafi en svo er hægt að breyta henni með því einu að láta ferskan kóríander í sem gefur meira asískt ívaf.

Monday, October 21, 2013

Risotto með grænum baunum, myntu og brie.


























Vetrarfrí gengið í garð. Fjölskyldan ákvað að gera mest lítið annað en að hafa það huggulegt. Flökkuðum svo mikið í sumar að heimilið er núna uppáhalds "frístaðurinn" okkar.  Á laugardaginn fór fjölskyldan hjólandi í Vesturbæjarlaug þar sem við áttum svo notalega stund og þegar við komum heima aftur fengu allir sér kríu, þreytt og afslöppuð. Þá var nú um að gera að taka fram matreiðslubókina sem keypt var í kaffihúsahangsinu daginn áður. Bókin heitir 200 Veggie feasts og lofar góðu.

Risotto með grænum baunum, myntu og brie

1,2 l grænmetissoð
50 g smjör
1 stór gulur laukur
2 hvítlauksrif
300 g arborio grjón
150 ml hvítvín
350 g frosnar grænar baunir
Lúka af ferskri myntu
50 g brie ostur
Salt og pipar
Paramesan ostur


Gerið soðið tilbúið, ég var nú bara með tening og vatn. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er oftast talað um einn tening á móti hálfum líter. Mun gera mitt eigið soð einhvern tímann. 
Bræðið smjörið og bætið út í lauk, hvítlauk, hitið á frekar lágum hita. Þegar laukurinn hefur mýkst, bætið þá grjónum út í og hrærið, 1-2 mín. eða þangað til grjónin byrja að vera pínu glær. 

Hellið hvítvíninu yfir og hrærið, mikilvægt að hræra rólega en næstum endalaust. Þegar vínið hefur gufað upp þá hellið þið alltaf hluta og hluta af soðinu, látið gufa upp og hellið aftur. Þegar smá er eftir af soðinu, hellið þá baununum út í og látið smá salt og pipar.  Í uppskriftinni er reyndar talað um að láta baunirnar strax út í en ég vildi hafa þær frekar "ferskar". 

Þegar tilbúið, bætið þá út í briebitum og myntu sem er búið að rífa út í og hrærið. Skellið smá myntu, paramesan og bita af brie á diskinn og berið fram. Ég notaði líklega 100 g af brie og svo kannski næst læt ég smá sítrónusafa. En bara kannski.

Gestgjafinn




Amma Kristín heitin las mikið Gestgjafann og svo ég í gegnum tíðina þannig að þegar ég var beðin um að vera með innslag þá þáði ég það með þökkum. Eldar stóð sig frábærlega sem aðstoðarkokkur og þjónn. Og dyravörður. Frábærar vinkonur gerðu kvöldið ógleymanlegt. Limonchello. Hugsa málið. Brotnir diskar. Hlátur. Vínilplötumaraþon. Lofaði Önnu Lindu vinkonu, sem hefði sæmt sér vel við matarborðið, að sýna henni myndirnar. Hérna eru þær. Tekið á símann minn.











                                                             











































Hveitikímsbaka með rauðrófum og grænkáli.

























Jæja. Er ekki mátulegt að gera færslu alla vega einu sinni á ári. Komið ár síðan síðast.

Þetta var nú ekki endilega hugsað sem "bloggmaterial" og myndin kannski ekki alveg að mínu skapi en mér fannst þetta fjarska bragðgott. Mældi ekki nákvæmlega heldur en skal reyna að gera þessu sem best skil.

Hveitikímsbaka með rauðrófum og grænkáli

2 dl hveitikím 
1 dl vatn
1 stór rauðrófa (2 litlar)
2 egg
100-200 g rjómaostur
1 dl mjólk
Smá paramesan
Grænkál
Sítrónusafi
Timjan
Rósmarín
Salt og pipar


Þetta var í annað sinn sem ég vann með hveitikím og því algjör nýliðum í þeim efnum. En æfingin skapar meistarann. Ég bjó til pizzabotn úr svona um daginn og það var dásamlegt.

Hitið ofninn upp í 200°. Byrjið á að skræla rauðrófuna og skera í litla teninga. Fínt að nota plastpoka/hanska til að forðast rauða litinn. Látið í pott og fáið upp suðu. Ég fékk upp suðu og svo var þetta örugglega i pottinum um 10-15 mín. eða þangað til þær eru orðnar pínu mjúkar. 


Látið hveitikímið í skál. Látið smá sjávarsalt og pipar útí. Hellið ca. 1 dl út í, samt ekki öllu í einu. Hrærið saman þangað til samsetningin fer að líkjast deigi. Þetta verður samt alltaf pínu laust og ég mældi ekki nákvæmlega vatnið og ef þetta er of laust í sér, þá bæta smá hveitikími út í. Látið blönduna í smurt bökuform. Notið hendur og fingur til að dreifa úr blöndunni jafnt til allra hliða. Ég náði bara að gera botn sem náði ekki upp til hliðana svo kannski geri ég meiri blöndu næst. Skellið inn í ofn í ca. 10 mín. 

Hellið vatninu af rauðrófunum og látið kalt vatn renna yfir rófurnar svo þær kólni aðeins. Hrærið eggin og mjólkina saman og látið smá salt og pipar út í. Takið botninn út ur ofninum og leyfið honum að kólna aðeins. Það er svona til þess að koma í veg fyrir að botninn verði of blautur. Raðið rauðrófunum yfir botninn og skvettið smá sítrónu yfir. Hellið svo eggjablöndunni yfir. Dreifið timjan og rósamarín yfir, örugglega ca. 1 tsk af hvoru. Notið svo teskeið til að dreifa rjómaostinum hér og þar. Rífið svo paramesan eða annan ost yfir og setjið aftur inn í ofninn og hitið í 10-15 mín eða þangað til fallegur litur er kominn á ostinn. 

Berið fram með grænkáli eða öðru góðu káli. Ég var búin að dreypa smá ólífuolíu á kálið. 


Sunday, October 21, 2012

SushiTime..



Búin að vera á leiðinni í 3-4 ár, hvorki meira né minna að gera aftur mitt eigið sushi. Hjónin urðu óvænt ein heima á fallegu laugardagskvöldi, kosningakvöldi. Þá hafði ég enga afsökun og þetta er afraksturinn. Ég var bara nokkuð sátt. Mæli með rauðrófubitanum. En ekki hvað, sagði konan sem elskar rauðrófur.

Sunday, October 14, 2012

Ravíólí með sætum kartöflum, sýrópi, chili og pekanhnetum.



Vá, mér finnst eins og síðasta færsla hafi verið gerð fyrir nokkrum vikum en hún er síðan í maí. Fyrr en varir verða komin jól.
Vorum með aukabarn í gistiheimsókn svo ákveðið var að láta grislingana borða pizzu og svo gera pasta fyrir okkur sem var borðað á spænskum tíma, þ.e. seint.

Einhvern tíma sá ég að hlynsíróp var notað með pasta og alltaf langað að prófa. Eftirfarandi er afraksturinn, dálítið öðruvísi pastaréttur, fljótlegur og fjarska góður.

  • Ravíólí með 4 osta fyllingu, 2 pakkar.
  • 100 g smjör
  • 2-3 msk hlynssíróp
  • 1-2 tsk chiliflögur
  • 1/2 sæt kartafla, skorin þunnt
  • Rifinn börkur af hálfri sítrónu
  • 1 dl pekanhnetur.
  • Steinselja
  • Sjávarsalt og svartur pipar
Setjið ofninn á 200° og látið kartöflurnar inn þegar hann er orðinn heitur, í 10-15 mín. Setjið pastað út í sjóðandi vatn og sjóðið samkvæmt upplýsingum. Látið smjörið í pott, þegar það er farið að krauma, látið þá sýróp og chili útí. Ristið pekanhneturnar á pönnu. Hellið vatninu af pastanu og látið svo aftur í pottinn, skellið smá smjörklípu útí, rífið sítrónuna yfir og hrærið varlega í. Látið pasta og sætar kartöflur á diska, hellið sírópssósu yfir, stráið yfir steinselju, salti og pipar og svo nokkrum pekanhnetum. Það gæti verið gott að vera með paramesan yfir en sjálf átti ég hann ekki til. Einn pakki af pasta(íslensk tegund, keypt í Hagkaup) hefði nú alveg dugað fyrir okkur hjónin en ég notaði 2 og við fengum okkur tvisvar...jamm, borðaði yfir mig. Ef manni finnst þetta of sætt, þá bætið endilega við öllu eða einhverju af eftirtöldu: chili/sítrónuberki/salti/steinselju. 



Thursday, May 17, 2012

Pasta með eggaldin, þistilhjörtum og svörtum ólífum


Mikið var notalegt að fá svona helgi þar sem ekkert er planað. Ég skal viðurkenna að ég verð samt dálítið óróleg og vil þá helst plana eitthvað en veit að það er gott að slaka stundum á og hlaða batteríin.

Ég elska pasta eins og svo margir aðrir og hér er einföld uppskrif og það er svona dásamlega "ríkt"bragð af sósunni og ekki verra að eiga rauðan dreitil með.

Pasta með eggaldin, þistilhjörtum og svörtum ólífum 
Fyrir 3-4

  • 1 stór rauðlaukur
  • 2-3 msk ólífuolía
  • 2-3 hvítlauksrif
  • 2 msk sítrónusafi
  • 1 eggaldin
  • 600 ml passata
  • 2 tsk púðursykur (örugglega fínt líka með agave)
  • 2 msk tómatpure
  • 400 g þistilhjörtu
  • 1 lítil krukka svartar ólífur, 115 g
  • Nokkrar kalamatri ólífur úr borðinu í Hagkaup.
  • Salt og pipar
  • Eitthvað gott pasta 

Skerið rauðlauk og pressið/skerið hvítlauk, skellið á pönnuna. Ég skar eggaldinið í svona hálfgerðar ræmur/báta, sem sagt skerið hann í helming, svo skera lengjur og skipta þeim svo í tvennt eða þrennt ef eggaldinið er langt.  Látið á pönnuna, hellið sítrónusafa yfir og leyfið að malla í ca. 5 mín eða þangað til eggaldinið tekur á sig lit, brúnast. Hellið yfir passata, tomatpure og púðursykri, hrærið, fáið svo upp suðu og leyfið svo að malla í 20 mín á lágum hita.

Látið pastað út í sjóðandi vatn. Ég notaði í þetta skiptið heilhveiti pappardelle en ég held að ég mæli frekar með spaghettí þótt það sé reyndar alltaf gaman að nota fleiri pastategundir.

Hellið af þistihjörtunum og skerið í aðeins smærri bita, látið útí ásamt ólífunum.  Saltið og piprið vel. Látið malla í 5-10 mín. Hellið af pastanum, skellið smjörklípu/olífuolíu yfir það. Ég stráði svo steinselju yfir sósuna en ef þið eigið eða fáið ferska basiliku þá myndi ég frekar nota hana.



Monday, April 9, 2012

Smalabaka a la grænmetis..




Fjölskyldan ákvað að skella sér á Aldrei fór ég suður á Ísafirði yfir páskana. Gistum á Suðureyri, svo huggulegt og ásamt því að sækja hátíðina góðu þá skelltum við okkur m.a. í kaffi á Þingeyri, börn og eiginmaður skelltur sér til Bolungarvíkur, Diljá vinkona átti afmæli, ég átti afmæli og við hittum fullt af skemmtilegu fólki. Takk fyrir okkur og vonandi áttu allir gleðilega páska. Í einhverju af fjölmörgum samtölum helgarinnar var talað um Shepards pie eða smalaböku. Ákvað að útbúa grænmetisútgáfu.

Skoðaði netið í hugmyndaleit og má segja að þessi sé upp úr þremur útgáfum, þ.e. mér leist ágætlega á hluta af hverri og blandaði svo saman í mína eigin útgáfu. Þetta var bara mjög gott og hressandi að fá sér grænmeti og linsubaunir eftir pizzur, samlokur og annað hressandi fyrir vestan.


Smalabaka a la grænmetis
..
  • 2 dl grænar linsur
  • 3 stórar kartöflur
  • 1 dl nýmjólk eða rjómi.
  • 1/2 laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 1/2 dallur sveppir (svona eins og fást í búðum)
  • 1/2 lítið brokkólíhöfuð, skorið frekar smátt.
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk salvia
  • 1/4 tsk múskat
  • 2 msk tómatpaste
  • Salt og pipar
Skolið linsurnar og látið í potn, hellið yfir 5,6 dl af vatni yfir, fáið upp suðu og látið svo malla í 30-40 mínútur, þess vegna mikilvægt að byrja á þessu. Skrælið og skerið kartöflur í meðal bita, fáið upp suðu, ætli þetta taki ekki um 10 mínútur, passa bara að þær verði ekki of mjúkar. Látið ofninn á 200 gráður.

Lét svo linsur í sigti, svo aftur í pottinn þegar vatn var runnið af. Steikti í smá smjöri og ólífuolíu laukinn, hvítlauk, svo eftir smá stund brokkolíið og sveppina þangað til sveppirnir hafa mýkst.
Hellti svo þessari blöndu saman við linsurnar, bætti kryddinu út í (oregano, salvíu og tómatpaste), einnig slatta af salti og pipar. Smakkið endilega blönduna, á að smakkast góð svona eintóm.

Hellið vatni af kartöflum, skellið smjörklípu út í, lét örugglega um 2 msk. Helli múskat í. Hrærið rólega í og hellti svo 1 dl af nýmjólk út í , hrærði svo með þeytara þangað til silkimjúkt. Kannski ég láti líka örlítinn sykur eða smá agave næst út í hræruna, svo gott að fá sætt á móti söltu.
Skellið svo linsublöndunni í olíusmurt form, jafnið út, látið svo kartöflumúsina yfir. Ég ákvað að nota svona sprautupoka til að fá fallega toppa. Hafið inni í ofni í 20-30 mínútur eða þangað til kartöflumúsin/topparnir taka á sig brúnan lit. Ég reif smá paramesan yfir. Gott að bera fram með góðu salati.