Friday, October 22, 2010

Grillað romaine salad með ofnbakaðri rauðrófu


Á mánudögum langar mann stundum í eitthvað hollt og gott (þó ekki alltaf).
Stóðst ekki mátið að kaupa íslenskt Romaine salat, aldrei keypt slíkt og leit svo girnilega út í búðinni. Átti rauðrófu og smá kínóa (quinoa) og þetta varð afraksturinn:

1 romaine salathöfuð
1 rauðrófa
1 dl kínóa
2 dl vatn
1/2 sítróna
1 tsk timjan
1 hvítlauksrif
1-2 tsk balsamic edik
Smá fetaostur
Smá parmesan (má sleppa)
Ólífuolía
salt & pipar


Hitið ofninn upp í 200°. Afhýðið rauðrófu og skerið í litla teninga. Látið olíu í botninn á eldföstu móti, ég nota úr stáli en ekki td. hvítt, vegna lits úr rófunni.  Látið rófurnar á fatið, látið salt og pipar og svo timjan, muna að mylja það yfir til að fá meira bragð. Hrærið í svo olía og krydd dreifist. Ég skar hvítlauksrifið í tvennt og lét þau á sitthvorn staðinn í mótinu og tók þau svo í lok eldunnar og svo er örugglega líka gott að kremja það og dreifa yfir. Hitið í 20- 40 mín, fer eiginlega eftir smekk hvernig maður vill hafa rófuna, meira harða eða ekki. Ef maður vill fá hana enn mýkri þá mæli ég með að maður sjóði rófuna í smá tíma áður en þetta fer í ofn.
Hitið kínóa í botninum á potti í smá tíma áður en vatnið fer yfir, það dregur fram "hnetukeim/mjúkt bragð", hellið svo vatni yfir, fáið upp suðu og látið svo standa og draga í sig vökvann.

Ég hitaði svo salatið í smá olíu á grillpönnu, en alveg hægt að gera á grilli í ofni eða bara á venjulegri pönnu. Ég sá til að það væri smá olía báðum megin og kreisti einnig smá sítrónu yfir og smá salt og pipar. Tók rófurnar út og blandaði þeim út í pottinn með kínóa, lét þá smá sítrónuskvettu, balsamic, salt og pipar og hrærði saman þangað til að kínóað hefur fengið á sig fallegan bleikan/vínrauðan lit.  Lét smá paramesan yfir salatið og smá feta sem ég átti.
Fannst þetta mjög gott, gæti verið gott líka að hafa rauðlauk með rófunni inni í ofni og eins nota jafnvel gráðost í stað feta yfir salatið. Ef maður fílar ekki balsamic þá mætti líka nota tamari/soya. Bætið við góðu brauði með ef maður vill hafa máltíðina matmeiri.

No comments: