Monday, January 2, 2012

Þistilhjörtu- sítrónu og möndlurisotto

Þessi mynd fær að duga þar til ég nenni að hlaða inn af stóru vélinni.

Keypti RISAstóra krukku af þistilhjörtum um daginn. Fékk síðan algjört "craving" í dag og ákvað að gera risotto með þistilhjörtum ( ég veit, risotto, rauðrófur, polenta, möndlur...mikið uppáhald hjá undirritaðri og ósjaldan í mínum uppskriftum).
Útkoman varð bara ágætis sunnudagsmáltíð. Best að skrifa þetta niður áður en það gleymist og halda svo áfram tiltekt í skápum. Er búin að komast að því að það getur verið árangursríkt og ekkert svo leiðinlegt að taka allt út úr skáp og sortera fyrir framan imbann. Búin að fylla tvo poka sem fara rakleiðis í bílskúrinn. En já, uppskrift.

Þistilhjörtu- sítrónu og möndlurisotto
  • 1 Laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 3 dl arboriogrjón
  • 8-10 dl grænmetissoð (2 teningar)
  • 1 tsk þurrkuð salvía (má sleppa)
  • Rifinn börkur af einni sítrónu
  • 2 msk sítrónusafi
  • 2 msk rjómaostur (má sleppa)
  • 2 dl gróft rifinn paramesan
  • 2-3 msk ólífuolía
  • 1 msk smjör (má sleppa)
  • Steinselja
  • 1-2 dl möndluflögur
  • Salt og pipar
Hitið olíu og smjör í potti/djúpri pönnu. Ég hitaði svo vatn í rafmagnskatlinum, helli svo í könnu plús 2 grænmetisteningar. Látið laukinn út á og um mínútu seinna hvítlaukinn. Hellið svo grjónum út í og hrærið í, þegar grjónin eru byrjuð að verða gegnsæ, þá hellið hluta af vökvanum yfir, eins og 2 dl. Hrærið reglulega í þegar grjónin hafa drukkið í sig vökvann, hellið þá 1 dl í einu eða svo. Passa að hræra í. Látið salvíuna út í, muna að mylja hana í lófanum til að "ýfa upp" bragðið. Mér datt í hug að hún væri gott mótvægi á móti þistilhjörtunum sem eru með svona söltu/súru bragði. Svo er auðvitað mjög gott að nota smá hvítvín ef maður á og þá best í byrjun, beint yfir grjónin.


Ég notaði svo um 3 dl af þistilhjörtum, ætli það sé ekki ca. lítil krukka eins og fást víða. Ég lét þau í sigti og skolaði mestu olíuna af með vatni. Þerraði það mesta af með eldhúsrúllupappír, skar svo niður í minni hluta. Ristið möndlurar, passið að þær brenni ekki, gerist svo snöggt. Svo 3 mínútum áður en tilbúið að bera fram, látið út í rjómaostinn, rífið sítrónu, sítrónusafa,smá salt og pipar, hrærið og að lokum þistilhjörtun. Ég lét smá á diska fyrir Sögu og Huga áður en sítrónusafi og þistilhjörtu fóru í. Stráið svo steinselju og möndlum yfir.

No comments: