Saturday, January 14, 2012

Yndislegt lasagne


Það verður að viðurkennast að þessi húsmóðir hefur verið lítið skapandi í eldhúsinu undanfarið. Kannski er það lítið að fara að breytast en hver veit. Til að koma mér í gang þá ætla ég að byrja á því að birta nokkrar uppskritir sem ég gaf upp á Miðjunni sálugu sem ég sakna. Ætla mér að elda eitthvað nýtt og gott í kvöld enda laugardagskvöld, ekkert á dagskrá, bara að njóta sín og vera til og þá er gaman að elda mat.

Þessa uppskrift fann ég einhvern tíma á netinu og þetta er besta lasagne sem ég hef búið til og gott að búa til tvöfalda uppskrift og frysta. Einföld uppskrift er reyndar ágætlega stór en hver vill ekki taka með sér afganga í vinnuna? Þetta tekur smá tíma í fyrsta skipti en alveg þess virði!


Yndislegt lasagne


Rauð sósa:

* 2-3 gulir laukar

* 3-4 gulrætur

* 2-3 hvítlauksrif

* 2 dl rauðar linsur

* 2-3 dl vatn

* 2 dósir hakkaðir tómatar

* 5-6 msk tómat pure

* 1 grænmetistengingur

* Ólífuolía

* Salt, svartur pipar, sykur, basilika, oregano,paprikuduft, chilli,cayenne pipar


Laukurinn skorinn smátt. Gulrætur rifnar gróft. Hvítlaukurinn pressaður og látið þetta þrennt mýkjast í olíunni á pönnu. Linsunum bætt við ásamt vatni, tening, tómötunum og tómatpure.


Hvít sósa:

* 300-400 g kotasæla

* 3 dl rifinn ostur (geyma hluta til að láta ofan á)

* 200 g frosið spínat

* Salt, hvítur pipar, múskat (alveg hægt að nota svartan pipar)


Spínat látið þiðna(hef hellt sjóðandi vatni yfir/hitað í örbylgju) og kreista svo vatnið vel af (ég nota kartöflupressu). Öllu blandað vel saman og kryddað.

Lasagne plötum er raðað á botninn í eldfast form. Því næst er sett rauð sósa, plötur, hvít sósa og plötur. Þetta er endurtekið þar til formið er fullt. Endað er á plötum, ofan á þær er stráð rifnum osti og að lokum er 1-2 dl af mjólk hellt yfir allt saman. Bakað í ofni, 200° í ca.40 mínútur.

No comments: