Saturday, January 14, 2012

Steikt eggjabrauð með rjómaosti, bláberjum, sírópi og ristuðum möndluflögum

Leyfið mér að kynna hin fullkomna sunnudagsmorgunmat! Þessa uppskrift rakst ég á í útlensku óléttublaði. Er með nokkur blöð í láni en einhvern veginn hef ég bara rétt nennt að glugga í þau, eitthvað annað en á fyrstu meðgöngu þegar maður bókstaflega drakk í sig allan fróðleik sem maður komst yfir. En já, rakst á þessa girnilegu uppskrift og var ekki róleg fyrir en búið var að prófa þetta. Þetta er auðvitað alveg dísætt en engu að síður yndislegt á fallegum sunnudagsmorgni. (Ath.þessi færsla er gömul, þessi uppskrift birtist fyrir rúmu 1 1/2 ári á Miðjunni)

Steikt eggjabrauð með rjómaosti, bláberjum, sírópi og ristuðum möndluflögum

  • 1 lítill bláberjabakki (held að hann sé 100g)
  • Hreinn rjómaostur
  • 2 egg
  • 2 eggjahvítur
  • 2 msk hunang
  • 4 sneiðar heilhveitibrauð
  • 30 g smjör, helst ósaltað í grænu pökkunum
  • Hlynssíróp
  • 2 msk möndluflögur

Pískið saman egg, eggjahvítur, mjólk og hunang. Hitið smjörið á pönnu, við notuðum grillpönnu. Dýfið brauði í blöndu og steikið þangað til að þetta fær á sig lit. Á sama tíma, ristið möndluflögur þangað til að þær taka á sig smá lit. Smyrjið svo 2 brauðsneiðar ríkulega með smurostinum, látið fullt af bláberjum á milli og smellið saman. Skerið í tvennt, hellið svo sírópi yfir og stráið að lokum möndluflögum yfir. Lokið augunum og njótið þess að bíta í, og njótið þess að vera til!

No comments: