Sunday, January 15, 2012

Möndlu- og chili spaghettí


Eins og ég hef nefnt í eldri færslu, þá eru mánudagar oftast pastadagar og þriðjudagar súpudagar á heimilinu. Ég er frekar heilalaus eftir vinnu þá daga og þá gott að vera búin að þrengja valið aðeins. Ég gef sjaldan upp fyrir hversu marga uppskriftirnar eru en ætla að reyna að hafa það í huga. Oftast er ég þó að elda fyrir okkar þriggja manna fjölskyldu og þá með það í huga að maður geti fengið sér ábót, enda er það alveg nauðsynlegt fyrir matargat eins og mig.

Möndlu- og chili spaghettí varð niðurstaðan einn mánudag í janúar og verður gert aftur. Ég elska chili og ég elska möndlur svo það kom ekki á óvart. Heimasætan er aftur á móti á tómatsósu tímabilinu og vonandi eldist það bara af henni. Ég nota Sambal Olek , chilimauk sem ég kaupi venjulega í asísku búðinni við Hlemm og nota í súpur og ýmislegt annað. En það má alveg nota ferskan chili, kannski hálfan til heilan um leið og hvítlaukurinn er steiktur. Held að þetta hafi verið nokkurn veginn svona. Ath. Þetta er gömul færsla frá mér af Miðjunni. Heimasætan er ennþá á tómatsósutímabilinu og við hefur bæst brosmoli sem deilir hennar dálæti.



Möndlu- og chili spaghettí

Ca. 300 gr spaghetti (ég notaði heilhveiti)

3-4 tómatar

1 hvítlauksrif

1 1/2 msk ólífuolía

2 dl fersk basilika (ca. 2-3 tsk þurrkuð giska ég á?)

1/2 til heil tsk sambal olek (smakkið ykkur áfram)

1/2 tsk salt

1 dl möndlur (ég notaði flögur)


Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum. Hitið olíu og steikið tómatana og hvítlaukinn, leyfið aðeins að malla þangað til vökvinn byrjar að aukast frá tómötunum, bætið þá sambal olek út í og rífið basilikuna útí(geymið smá til „skreytingar), saltið, hrærið í og lækkið hitann. Á sama tíma, ristið möndlur á pönnu þangað til að þær taka smá lit á sig. Hellið af pastanu, látið standa í 1 mín. Hellið ólífuolíu yfir spaghettíð og hrærið lauslega í gegnum. Setjið á diska, látið tómatchiliblöndu með möndlunum yfir og að lokum stráið smá ferskri basiliku yfir ef notuð. Maðurinn minn notaði paramesan yfir en ég vildi sleppa því í þetta skiptið. Ég mæli jafnvel með að gera tvöfalda uppskrift af gumsinu því það er svo gott en ég nenni ekki að breyta uppskriftinni.

No comments: