Sunday, January 22, 2012

Polenta á fennikubeði.


Polenta er ósjaldan á mínum borðum. Ég átti fenniku (fennel) í ískápnum en fyrir jól steikti ég fenniku í smjöri, sírópi, salti og pipar og hafði ofan á beðinu grillaðan halloumi og fannst mér það smakkast vel saman. Í þetta skiptið átti ég ekki ostinn góða og ákvað því að útbúa polentu "medalíur". Eins eru rauðrófur mikið notaðar á heimilinu og tilvalið að rífa niður ferska rófu með. Þetta var sem aðalréttur hjá okkur en uppskriftin ætti að duga sem forréttur fyrir 4 en þá mætti kannski bæta annari rauðrófu við en ég notaði reyndar litla. Gerði þetta síðustu helgi og vona að ég muni þetta rétt

Polenta á fennikubeði
  • 7 dl vatn
  • 2 dl polentugrjón
  • 1 grænmetisteningur
  • 1-2 dl rifinn ostur, má sleppa
  • 1 dl paramesan, helst ekki sleppa
  • Rifinn börkur af hálfri sítrónu
  • 2 fennikur
  • Síróp
  • 1 rauðrófa
  • 1 fersk fíkja, má sleppa
  • Smjör til steikingar
  • Balsamikedik
  • Salt og pipar

Setjið vatn og tening í pott, fáið upp suðu, takið pottinn aðeins af hellunni og hellið polentu út í og hrærið hratt með písk, passa að ekki myndist kögglar, látið aftur á helluna sem ætti að vera á miðlungshita og hrærið endalaust, það skvettist stundum upp úr pottinum svo ég tek pottinn oft aðeins af og læt á. Þegar þetta er orðið að mjúkri hræru, skellið þá ostinum út í og hrærið niður. Látið svo hræruna í olíusmurt form, ég notaði form sem er ca. 20cm x 15 en getið líka notað bökuform og bara að reyna að hafa þykktina ca. 1 1/2 - 2 cm. Látið formið inn í ískáp.

Skerið af efri og neðri hluta fennikunnar, stundum þarf að henda ysta lagi,skerið í strimla, skolið og þurrkið. Steikið í smjöri, þegar þetta verður pínu glært, skellið þá 1-2 msk af sírópi, getið notað agave en ég notað hlynssíróp (maple). Ég saltaði og pipraði aðeins.

Afhýðið rauðrófuna, ekki vitlaust að nota lítinn plastpoka eða eitthvað til að halda við svo rauði liturinn festist ekki á fingrunum. Notið rifjárn og rífið, helst ekki of fínt. Geymið í skál og mig minnir að ég hafi skvett smá sítrónu yfir.

Takið polentu út úr ískáp. Ég á svona "sívalinga" sem ég keypti í Kokku sem ég nota stundum við matargerð. Notaði þann minni sem er ca. eins og bolli að þvermáli. Notaði eins og form og skar út nokkar "medalíur". Held að það sé alveg hægt að nota bolla til að skera út en annars bara skera í ferninga, ekkert verra. Steikti svo litlu polentubitana upp úr lítilli olíu. Lét sívalinginn á diskana og lét steiktu fennikuna ofan í, svona til að það myndi mynda hringlaga beð (alveg hægt að gera bara fríhendis og gera með höndum). Lét svo polentubita ofan á beðin, lét svo sívaling aftur ofan á polentu, fenniku ofan í og svo aftur polentubita yfir. Látið 1-2 tsk af balsamic yfir rauðrófuna og hrærið í. Ég lét svo sívalinginn við hliðina á "turninum" og hellti rauðrófunni ofan í. Átti ferska fíkju og lét þannig bát efst. Drukkum spánskt rauðvín með og allir mjög sáttir eða já, við bæði, hjónin.

1 comment:

Anonymous said...

Þetta hljómar vel. Prófa þessa við gott tækifæri :)
Margrét Rós