Monday, October 19, 2009

Pasta með sikileysku/n-afrísku ívafi

Mánudagar eru pastadagar á þessu heimili. Ég átti brokkólí sem þurfti að nota en langaði ekki í "rauða" pastasósu (tómataeitthvað) og ekki mjólk/ost/rjómakennda sósu. Fann skemmtilega en öðruvísi uppskrift á netinu sem var með brokkólí. Í henni áttu að vera heimagerðar semólínu makkarónur sem ég skipti út fyrir heilhveiti penne, í staðinn fyrir ansjósur notaði ég capers og í stað saffrans notaði ég smá turmeric. Með öllum hinum hráefnunum varð þetta hin fínasti pastaréttur .

Pasta með sikileysku/N-afrísku ívafi
  • Ca 200 g heilhveitipasta penne
  • Miðlungs brokkóli
  • 1 gulur laukur
  • 2-3 tsk capers
  • 2 msk rúsínur
  • 2 msk furuhnetur
  • 1/2 tsk turmeric
  • 1 1/2 msk tómatpurre
  • Olía, salt og pipar
  • paramesanostur
Gera: Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum, munið að salta vel, finnst það mikilvægt þegar heilhveiti eða speltpasta er notað því það er sætara á bragðið. Skerið laukinn frekar smátt og steikið í ólífuolíu. Þegar laukurinn byrjar að taka á sig lit, bætið þá capers yfir og steikið aðeins lengur. Á meðan ég steikti laukinn sauð ég vatn í hraðsuðuketlinum sem ég hellti svo yfir brokkólíið og leyfði því aðeins að standa en ég vill hafa það brakandi. Látið tómatpurre yfir laukinn og capers, hrærið og hellið svo brokkólívatninu, um 3 dl, yfir. Fáið upp suðu og látið malla í smá stund, látið svo turmeric, furuhnetur og rúsínur útí og hrærið og að síðustu, saltið, piprið og látið brokkólí og sigtað pastað útí. Leyfið að standa á litlum hita í 10 mínútur. Berið fram og stráið rifnum paramesan yfir.

No comments: