Saturday, June 9, 2007

Risotto Primavera



Eldar minn varð þrítugur þann 29.maí. Það var ekki fyrr en núna um helgina að það var haldið upp á það með fjölskyldunni og svo næstu helgi með vinum.
En auðvitað var eldaður góður matur handa afmælisbarninu og þar sem Eldar er mjög hrifin af risotto, þá ákvað ég að gera nýja uppskrift sem mig hafði lengi langað til að prófa. Vá, sé ekki eftir því, þetta var rosalegt!! Smá vinna en svo þess virði! Fólki vex oft í augum hversu mikið getur verið í grænmetisréttum, en látið það ekki hræða ykkur og þetta er í raun ekki dýrt miðað við að þetta er veislumatur, getið keypt flest í bónus og svo endað td. í Hagkaup en það er æðislegt að skoða og versla grænmeti og ávexti þar!


Risotto Primavera
fyrir 4-6
  • 225 gr ferskur aspas
  • 4 msk ólífuolía
  • 175 g strengjabaunir, skornar í ca 2,5cm bita
  • 175 gr kúrbítur, skorið í fjórðunga (velja mjóan)
  • 1 laukur, fínt skorin
  • 2 hvítlauksrif, fínt skorin
  • 350 gr arborio eða carnaroli hrísgrjón
  • 1,5 l grænmetissoð
  • 4 vorlaukar, skornir á lengdina, ca. 2, 5 cm
  • salt og pipar
  • 4 msk smjör
  • 115 gr paramesan
  • 2 msk graslaukur, saxaður
  • 2 msk rifin basilika (ég notaði rauða basiliku sem ég fékk í hagkaup, mjög smart)
  • vorlaukur til að skreyta með
Gera:
Skerið endana af aspasnum, skerið svo í helming eða þrjá bita, fer eftir stærð.

Hitið 2 msk af ólífuolíu á stórri pönnu eða í potti og fáið upp háan hita. Skellið út á aspasnum, baununum og kúrbítnum og snöggsteikið í 3-4 mínútur eða þangað til komin er fallegur ljósgrænn litur og grænmetið hefur mýkst. Setjið til hliðar.

Hitið restina af olíunni í stórum potti á miðlungshita. Látið laukinn út í og mýkið í 1 mín.
Bætið hvítlauk út í og eldið í 30 sek. Bætið svo út í grjónum og eldið og hrærið í ca 2 mín eða þangað til grjónin verða hálf gegnsæ og ötuð í olíu.

Hellið yfir um 1/6 (250 ml) af soðinu, hrærið stanslaust þangað til vökvinn er gufaður upp og bætið þá alltaf útí ca. 1 dl af soðinu, látið gufa upp og svona koll af kolli, aldrei láta grjónin verða alveg"þurr". Þetta tekur um 20-25 mín.

Bætið út í grænmetinu og eigið þá eftir örlítið af soðinu og eldið í um 2 mín. Kryddið með salti og pipar. Hrærið út í paramesan, graslauk og basil.

Takið af hitanum og látið standa í 1 mínútu, berið svo strax fram og endilega skreyta með vorlauk og basiliku.

Verði ykkur að góðu!

2 comments:

Anonymous said...

Yummy!! Þetta á ég pottþétt eftir að prófa. Sendi afmæliskveðjur til Gamla ;-)

Anonymous said...

Skilaðu síðbúinni afmæliskveðju frá mér til piltsins