Monday, October 21, 2013

Risotto með grænum baunum, myntu og brie.


























Vetrarfrí gengið í garð. Fjölskyldan ákvað að gera mest lítið annað en að hafa það huggulegt. Flökkuðum svo mikið í sumar að heimilið er núna uppáhalds "frístaðurinn" okkar.  Á laugardaginn fór fjölskyldan hjólandi í Vesturbæjarlaug þar sem við áttum svo notalega stund og þegar við komum heima aftur fengu allir sér kríu, þreytt og afslöppuð. Þá var nú um að gera að taka fram matreiðslubókina sem keypt var í kaffihúsahangsinu daginn áður. Bókin heitir 200 Veggie feasts og lofar góðu.

Risotto með grænum baunum, myntu og brie

1,2 l grænmetissoð
50 g smjör
1 stór gulur laukur
2 hvítlauksrif
300 g arborio grjón
150 ml hvítvín
350 g frosnar grænar baunir
Lúka af ferskri myntu
50 g brie ostur
Salt og pipar
Paramesan ostur


Gerið soðið tilbúið, ég var nú bara með tening og vatn. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er oftast talað um einn tening á móti hálfum líter. Mun gera mitt eigið soð einhvern tímann. 
Bræðið smjörið og bætið út í lauk, hvítlauk, hitið á frekar lágum hita. Þegar laukurinn hefur mýkst, bætið þá grjónum út í og hrærið, 1-2 mín. eða þangað til grjónin byrja að vera pínu glær. 

Hellið hvítvíninu yfir og hrærið, mikilvægt að hræra rólega en næstum endalaust. Þegar vínið hefur gufað upp þá hellið þið alltaf hluta og hluta af soðinu, látið gufa upp og hellið aftur. Þegar smá er eftir af soðinu, hellið þá baununum út í og látið smá salt og pipar.  Í uppskriftinni er reyndar talað um að láta baunirnar strax út í en ég vildi hafa þær frekar "ferskar". 

Þegar tilbúið, bætið þá út í briebitum og myntu sem er búið að rífa út í og hrærið. Skellið smá myntu, paramesan og bita af brie á diskinn og berið fram. Ég notaði líklega 100 g af brie og svo kannski næst læt ég smá sítrónusafa. En bara kannski.

No comments: